Metfjöldi umsókna um meistaranám barst Háskólanum í Reykjavík í vor. Vegna COVID-19 var umsóknarfrestur framlengdur og rann út í flestum deildum á miðvikudaginn var, 20. maí.

Alls hafa borist 1426 umsóknir um meistaranám í ár, samanborið við 1073 á sama tíma í fyrra. Það er 33% fjölgun umsókna. Þar af eru 558 innlendar umsóknir og hefur þeim fjölgað um 20% frá 2018.

Umsóknum hefur fjölgað milli ára í öllum sex deildum háskólans sem bjóða upp á meistaranám, en mest fjölgun umsókna er um meistaranám í tölvunarfræðideild.