Mikil umsvif voru á skuldabréfamarkaði í gær og velta á honum hefur ekki verið meiri frá útgáfu íbúðabréfa í júlí 2004, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Samanlagt skiptu skuldabréf að verðmæti 24,3 milljörðum króna um hendur og þar af voru 19,5 milljarðar króna verðtryggð bréf.

Ávöxtunarkrafa þeirra lækkaði um 11-22 punkta og lá verðtryggði ávöxtunarferillinn á bilinu 4,20%-4,35% í lok dags í gær og hefur haldið áfram að lækka í morgun, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði í gær á lengri tveimur flokkunum um 7-12 punkta og hefur haldið áfram að hækka í dag. Ávöxtunarkrafa stysta ríkisbréfaflokksins RIKB 07 lækkaði hins vegar bæði í gær og í dag, samanlagt um 50 punkta það sem af er degi.