Flugvélaframleiðandinn Boeing seldi meira en þrefalt fleiri flugvélar á síðasta ári en árið áður. Mikil fjölgun var í sölu Boeing 737 véla, sem er mest selda vél Boeing frá upphafi, en félagið seldi 530 slíkar vélar á síðasta ári.

Í frétt Bloomberg segir að eftirspurn eftir flugvélum sé nú farin að aukast eftir að hafa tekið dýfu í kjölfar fjármálakreppunnar.

Flugvélaframleiðandinn afhenti 462 vélar á síðasta ári en markmið félagsins var að afhenda 460 vélar. Afhending véla er öllu mikilvægari en sala véla, sem eru pantaðar fyrir fram, því þá greiða flugfélag stærstan hluta greiðslunnar.