Vísbendingar eru um að umsvif í ferðaþjónustu hafi aukist nokkuð í ár miðað við síðasta ár, segir greiningardeild Glitnis.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um tæp 6% frá því í ágúst mánuði í fyrra og voru ríflega 136 þúsund í mánuðinum.

?Á fyrstu átta mánuðum ársins hefur gistinóttum fjölgað mikið, eða um 10% frá því í fyrra. Kemur þetta fram í tölum Hagstofunnar frá því í morgun. Hlutfallslega varð aukningin mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, þar fjölgaði gistinóttum um 22% á milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 8%.

Mikilvægasti tími ferðaþjónustunnar er frá maí til ágúst og hefur verið góð aukning í öllum sumarmánuðunum. Það sem af er ári standa erlendir ferðamenn að baki um 80% af gistinóttum ársins. Það hlutfall er heldur lægra en síðustu ár," segir greiningardeildin.

Erlendum ferðamönnum fjölgar enn

Hún segir að erlendum ferðamönnum til landsins (þ.e. erlendir ferðamenn um Leifsstöð) hafi fjölgað um 2,6% í júlí frá sama mánuði í fyrra.

?Fyrstu sjö mánuði ársins fjölgaði erlendum ferðamönnum um 6,5% í gegnum Leifsstöð. Þær tölur tala sama máli og gistináttatölurnar. Hlutfallslega mest hefur ferðamönnum frá Japan, Kanada, Spáni og Bandaríkjunum fjölgað í ár.

Þegar mikilvægasta tímabili ferðaþjónustunnar er að ljúka virðist sem árið í ár verði gott fyrir ferðaþjónustuna. Krónan hefur að meðaltali verið veikari en í fyrra sem kemur sér vel fyrir ferðaþjónustuna. Önnur skýring er aukið framboð af ferðamöguleikum með tíðari flugferðum til landsins," segir greiningardeildin.