Ætla má að erlend umsvif 70 íslenskra fyrirtækja í upplýsingatækni nemi um 37 milljörðum króna, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Íslandsstofa og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja hafa gert. Fyrirtækin sem þátt tóku í könnuninni eru með starfsemi í 19 löndum, 3.300 starfsmenn, þar af 2.100 hér á landi. Á meðal þess sem fram kom í könnuninni var að 80% fyrirtækjanna telja að hægt sé að auka útflutning enn frekar.

Könnunin var gert í tengslum við kynningu Íslandsstofu við kortlagningu á umfangi upplýsingageirans.

Í tilkynningu frá Íslandsstofu kemur fram að á milli klukkan 10 og 12 í dag verði kynnt verkefni sem ráðist verði í til að auka útflutningsmöguleika greinarinnar ásamt niðurstöðu úttektar á stöðu hennar.

Þá segir ennfremur:

„Á heimsvísu hefur upplýsingatækniiðnaðurinn staðið uppi sem ein af þeim greinum sem náð hefur að eflast og styrkjast þrátt fyrir samdrátt á ýmsum sviðum og efnahagserfiðleika og stjórnvöld víða um heim líta svo á styrkur þess iðnaðar sé ein af lykilforsendum þess að komast út úr þeim erfiðleikum.

Talið er að miklir möguleikar geta falist í því hér á landi að auka samvinnu með því að nýta klasahugmyndafræði í upplýsingatæknigeiranum.  Með því væri hægt að efla greinina, nýta mannafla betur og skapa meiri virðisauka.“

Kynning Íslandsstofu