*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 16. apríl 2020 07:14

„Umsvif hins opinbera eru alltof mikil“

Forstjóri Sýnar segir ríkasta 1% hafa náð stjórn á embættismannakerfinu enda hagnist þeir mest á peningaprentuninni.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Eva Björk Ægisdóttir

Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar segir að ákveðið andvaraleysi hafi grafið um sig í heiminum gagnvart fjárhagslegum áföllum þá þrjá áratugi mikillar velmegunnar sem tók við eftir að það tókst að ná tökum á verðbólgunni á 9. áratug síðustu aldar. Þetta sagði Heiðar aðsendri grein í nýju tímariti Frjálsrar verslunar undir yfirskriftinni: Erum við öll orðin Keynesistar?

Þar rekur Heiðar hugmyndafræðilegu baráttuna milli hagfræðikenninga John Maynards Keynes og þeirra sem tekið hafa við af honum við að boða að stjórnvöld ættu að stýra hagkerfinu til að jafna út sveiflur, og aftur Austurríska skóla hagfræðinnar, en fylgismenn hans trúa því að hagsveiflur séu eðlilegur og nauðsynlegur hluti hvers hagkefis.

„Austurrískir hagfræðingar guldu því varhug við hvers konar sveiflujöfnun af hálfu ríkisins. Hagfræðingar skólans sögðu að ef seðlabankar færu að reyna að stýra hagkerfinu í gegnum stýrivexti og peningamagn í umferð þá myndi það brengla skilaboð markaða um verð og þar með leiða til þess að rangar ákvarðanir yrðu teknar um fjárfestingar. Þeir bjuggu til hugtakið „malinvestment“ yfir það sem má kalla á íslensku fjárfestingarmistök. Við höfum mörg dæmi um fjárfestingamistök, bólur í kringum verðbréf tæknifyrirtækja, húsnæðisbólur, hrávörubólur og svo framvegis,“ segir Heiðar sem segir skólann hafa tapað pólítískt enda hugnist það stjórnmálamönnum betur að beita inngripum.

„Það er auðvelt að færa rök fyrir því í dag að aukið peningamagn í umferð árið 1999 til að bregðast við ímynduðum tölvuvanda sem gæti komið upp þegar árið 2000 gengi í garð hafi kynnt mikið undir netbólunni, sem sprakk um leið og seðlabönkum var ljóst að enginn vandi myndaðist og peningamagn var dregið til baka. Þegar síðan fjármálamarkaðurinn gefur eftir árið 2001 eftir hryðjuverkaárásirnar í september er ákveðið að lækka vexti og auka aftur peningamagn í umferð. Það leiðir af sér húsnæðisbóluna sem sprakk ekki fyrr en árið 2007 og dró þá næstum bankakerfið með sér. Þegar hingað var komið var ekki lengur verðlagsstöðugleiki helsta markmið seðlabankanna heldur frekar fjármálastöðugleiki. Í því ljósi ákváðu þeir að auka enn frekar peningamagn í umferð en í þetta skiptið til að styðja við bankakerfið.“

Segir Heiðar að nú sé svo komið að fjármálamarkaðir megi ekki hósta án þess að seðlabankar heimsins fái kvef, því alltaf sé horft til þess að þeir bregðist við öllum lækkunum á mörkuðum með lægri vöxtum og auknu peningamagni. Hann tekur þó fram að það eigi ekki við hér á landi að hagsmunaaðilar á fjármálamarkaði ráði ferðinni.

„En umsvif hins opinbera eru alltof mikil. Hlutdeild hins opinbera af þjóðartekjum hefur hækkað um hátt í helming frá því fyrir 40 árum síðan og Ísland er með stærsta eða næst stærsta opinbera kerfið eftir því á hvaða mælikvarða er horft,“ segir Heiðar.

Almennt segir hann að efast megi um meint sjálfstæði seðlabanka, en hann vísar í hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gengið svo langt að halda því fram að með því og markmiði um verðstöðuleika og stýrivaxtatækinu væri búið að finna hið heilaga gral, en eftir fjármálahrunið 2008 væri að hans mati full ástæða til að endurskoða þá trú.

„Þannig er fjármálakerfið nánast búið að taka seðlabanka heimsins í gíslingu, ef þeir koma ekki með aukið fjármagn inná markaðinn segir fjármálakerfið að hrun sé í vændum.  Það er því nokkuð til í því að ríkasta 1% heimsins hafi tekið yfir kerfið enda eru það aðilarnir sem hafa hagnast mest á peningaprentun síðustu ára, þar sem verð hafa bjagast og það sem menn töldu vera heilbrigðar fjárfestingar eru lítið annað en fjárfestingarmistök (malinvestement),“ segir Heiðar.

„Stjórnmálamenn og almenningur hafa í miklum mæli sett ábyrgð á fjármálakerfinu í hendur embættismönnum sem vilja fyrir alla muni forðast það að órói skapist á sinni vakt og eru því sérstaklega ginkeyptir fyrir því að þóknast markaðsaðilum. Aðhaldið sem fjármálamarkaðir áttu að veita kerfinu fer þannig fyrir lítið. Eða eins og Kyle Bass sagði, „kapítalismi án gjaldþrota er einsog kristindómur án helvítis“, það vantar áhættuna af því að standa sig ekki í stykkinu.“

Segir Heiðar að nú sé enn og aftur verið að öskra á aðgerðir vegna efnahagsáfalla, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa stjórnvöld og seðlabanki gripið til aðgerða sem muna milljarðatugum til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar.

„Á Íslandi er það kannski óumflýjanlegt. Ástæðan er sú að hið opinbera er orðið langstærsti gerandinn í hagkerfinu.  Langstærsti launagreiðandinn og borga hæstu launin. Ríkið á nær alla innviði,“ segir Heiðar.

„Það var Milton Friedman sem sagði hin fleygu orð, „We are all Keynesians now“ árið 1965 og var þá að gagnrýna hvernig Richard Nixon heimtaði inngrip seðlabanka vegna óróa á fjármálamörkuðum. Í dag, þegar maður fylgist með þegar rætt er um aðgerðir vegna áfalla í hagkerfinu, virðist það eiga jafn vel við.

Til lengri tíma eru inngrip hins opinbera og miðstýring ekki kerfi sem við getum búið við. Við megum ekki gleyma því hvaðan verðmætasköpunin kemur.“