*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 18. október 2019 10:24

Umsvif í ferðþjónustu minnka

Tekjur af erlendum ferðamönnum minnkuðu á 2. fjórðungi. Gistinóttum fækkaði í ágúst og velta í ferðþjónustu minnkaði.

Ritstjórn
Umsvif í ferðaþjónustu drógust saman á öðrum ársfjórðungi.
Haraldur Guðjónsson

Tekjur af erlendum ferðamönnum á öðrum ársfjórðungi voru 119 milljarðar króna sem er 9 milljörðum minna en á sama tíma í fyrra eða 7% samdráttur. Þetta kemur fram í nýjum tölum um skammtímahagvísar ferðaþjónustu í Hagstofu Íslands. Í frétt á vef stofunnar segir að lækkunina megi eingöngu rekja til flugreksturs þar sem tekjur drógust saman um 20% samanborið annan ársfjórðung 2018. 

Önnur neysla erlendra ferðamanna á sama tímabili var svo til óbreytt. 

Virðisaukaskattskyld velta á tímabilinu maí-júní síðastliðinn dróst saman um 13% miðað við sama tímabil í fyrra og var 111,2 milljónir króna. Mest munaði um samdrátt í farþegaflutninga með flugi sem dróst saman um nær 30% og velt í ferðaskipulagningu um 11% á tímabilinu milli ára. Farþegaflutningar á landi drógust saman saman um 8%.   

Heildarfjöldi gistinótta drógust saman 4% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og voru 1.597.030 talsins. Þegar miðað er við tímabilið september-ágúst 2018-2019 er um minni fækkun að ræða eða 1% miðað við sama tímabil árin á undan. Langmest fækkun var í gistingu í gegnum vefsíður á borð við Airbnb sem fækkaði um 17% í ágúst og voru 240 þúsund talsins. Þá fækkaði einni óskráðum gistinóttum umtalsvert eða 19% og voru 79 þúsund talsins. 

Gistinætur á hótelhertberjum í ágúst fjölgaði hins vegar um 2% frá sama mánuði í fyrra og voru rúmlega 513 þúsund talsins. Þegar miðað er við tímabilið september-ágúst 2018-2019 fjölgaði gistinóttum um 1% miðað við sama tímabil árin á undan og voru tæplega 4.413 þúsund talsins.  

Nýting hótelherbergja dróst hins vegar saman þrátt fyrir að fjölgun gistinótta þar sem hótelherbergjum fjölgaði meira. Þannig jókst framboð hótelherbergja um 5% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra. Nýting milli sömu mánaða fór þar af leiðandi úr 85% í 83%.