Dagurinn í dag, 18. júní 2012, er stór og umsvifamikill í íslenskri ferðaþjónustu en í dag koma um 16 þúsund ferðamenn til landsins. Reyndar er algengt að mörg þúsund manns komi til landsins á hverjum degi með flugi en í dag leggjast að bryggju í Reykjavík að auki fjögur stór skemmtiferðaskip með um 10 þúsund manns.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar er rætt við Ólafíu Sveinsdóttur, deildarstjóra hjá ferðaskrifstofunni Atlantik, sem hefur umsjón með móttöku þriggja skipanna sem leggjast að bryggju í dag. Hún segir m.a. að unnið hafi verið að því á annað ár að undirbúa daginn í dag. Þannig þurfi 105 rútur fyrir daginn, 30 jeppabifreiðar auk annarrar skipulagningar á veitingastöðum, hótelum, afþreyingarferðum o.s.frv.