Umtalsverðar breytingar voru samþykktar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um eignaumsýslufélag í atkvæðagreiðslu á Alþingi í morgun en þá var frumvarpinu jafnframt vísað til þriðju og síðustu umræðu.

Samkvæmt breytingunum er félaginu fyrst og fremst ætlað að aðstoða bankana við fjárhagslega endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja. Í undantekningartilvikum er því heimilt að taka yfir stór og umfangsmikil fyrirtæki sem hafa þá verið í viðskiptum við fleiri en eina fjármálastofnun.

Sátt náðist um breytingarnar í efnahags- og skattanefnd þingsins ef frá er talinn fulltrúi Framsóknarflokks. Þannig stóðu þingmenn Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar að breytingartillögunum ásamt þingmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók þó fram í atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi fyrir hádegi að þingmenn flokksins myndu ekki taka endanlega afstöðu til frumvarpsins fyrr en það kæmi aftur úr nefnd.

„Mér hefur verið tjáð að málinu verði vísað til nefndar enn á ný," sagði hann og bætti því við að margir sjálfstæðismenn vildu sjá frekari breytingar á frumvarpinu. Lágmarka þurfi, sagði hann, afskipti ríkisvaldsins af efnahagslífinu.

Verður ekki risavaxið eignarhaldsfélag

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður efnahags- og skattanefndar, sagði í annarri umræðu um málið á Alþingi í vikunni að með umræddum breytingum verði eðli eignaumsýslufélagsins ekki „það risavaxna eignarhaldsfélag sem sumir sáu fyrir sér með skelfingu að ríkið ætti að starfrækja. Heldur sé eðli þess að vera ráðgjafarfyrirtæki við hina fjárhagslegu endurskipulagningu."

Samkvæmt breytingunum, sem samþykktar voru í morgun, getur félagið sem fyrr sagði í undantekningartilvikum keypt eignarhluti í skuldsettum atvinnufyrirtækjum. „Félagið skal starfa eftir gagnsæjum og hlutlægum reglum um endurskipulagningu og kaup á eignum að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði og samkeppni [...]," segir enn fremur í breytingartillögunum sem nú hafa verið samþykktar.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í efnahags- og skattanefnd, þakkaði sérstaklega, í atkvæðagreiðslunni í morgun, formanni nefndarinnar fyrir mjög góða samvinnu um málið. „Frumvarpið er gjörbreytt núna," sagði hann.

Breytingarnar má finna í heild sinni hér.