Útlit er fyrir að rekstrarhagnaður Eimskips á þriðja ársfjórðungi verði „umtalsvert betri“ en á sama ársfjórðungi síðasta árs, samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Miðað við stjórnendauppgjör er áætluð EBITDA hagnaður flutningafélagsins á bilinu 33,2-36,2 milljónir evra, eða sem nemur 5,1-5,5 milljörðum króna.

Til samanburðar var EBITDA hagnaður, þ.e. afkoma fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir, hjá Eimskip á sama fjórðungi síðasta árs 21,4 milljónir evra og 20,3 milljónir evra árið 2019. Það stefnir því að rekstrarhagnaður Eimskips aukist um um helming frá fyrra ári.

Að teknu tilliti til væntra afskrifta gera stjórnendur Eimskips ráð fyrir að EBIT hagnaður á fjórðungnum verði á bilinu 20,1-23,1 milljónir evra, eða um 3,1-3,5 milljarðar króna. EBIT hagnaður flutningafélagsins nam 10,4 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi síðasta árs og 9,2 milljónum evra á þriðja fjórðungi 2019.

Sjá einnig: Tiltekin farin að skila árangri

Við uppgjör annars ársfjórðungs sem var birt 19. ágúst síðastliðinn kom fram að aðlöguð afkomuspá fyrir árið 2021 liggi á bilinu 90-100 milljónir evra. Breitt bil endurspegli óvissu og ójafnvægi sem ríkir á alþjóðlegum flutningamörkuðum. Í tilkynningu Eimskips í kvöld segir að gera megi ráð fyrir að afkoma félagsins verði nær efri mörkum afkomuspánnar. EBITDA afkomuspáin hafði þegar verið hækkuð töluvert í ár en í desember 2020 var áætlað að afkoman yrði á bilinu 68-77 milljónir evra.

Bent er þó á að þriðja ársfjórðungi er ólokið og geta niðurstöður tekið breytingum af þeim sökum sem og í uppgjörsferlinu. Eimskip mun birta uppgjör fjórðungsins eftir lokun markaða þriðjudaginn 9. nóvember.

Þrátt fyrir að hlutabréfverð Eimskips hafi lækkað um 8,6% frá því það náði methæðum þann 24. ágúst, þá hefur gengi félagsins engu að síður þrefaldast á ársgrunni.