*

föstudagur, 21. janúar 2022
Innlent 14. janúar 2022 14:43

„Umtalsvert betri“ afkoma hjá Origo

EBITDA hagnaður Origo á fjórða ársfjórðungi jókst um hundrað milljónir á milli ára, sér í lagi vegna sölu á notendabúnaði.

Sigurður Gunnarsson
Jón Björnsson, forstjóri Origo.
Eyþór Árnason

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá Origo á síðasta fjórðungi 2021 var á bilinu 490-530 milljónum króna, samkvæmt drögum að uppgjöri. Miðað við það er afkoma félagsins „umtalsvert betri“ en á sama ársfjórðungi 2020 þegar EBITDA hagnaðurinn nam 381 milljón. 

„Helstu ástæður eru hærri tekjur og almennt betri afkoma á flestum sviðum en þó sér í lagi í hærri tekjum og sterkri afkomu í sölu á Notendabúnaði,“ segir í afkomuviðvörun sem upplýsingatæknifyrirtækið sendi frá sér fyrir stuttu. 

Origo áætlar að hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) verði á bilinu 260-300 milljónir að teknu tillit til væntra afskrifta en til samanburðar nam EBIT hagnaður félagsins 165 milljónum á fjórða ársfjórðungi 2020.

Upplýsingatæknifyrirtækið áréttar að um sé að ræða bráðabirgðamat og niðurstöðurnar geta tekið breytingum fram að birtingadegi þann 3. febrúar næstkomandi. 

Stikkorð: afkomuviðvörun Origo