„Ég var stundum send út á undan rútunum að vaða árnar. En það var í lagi, ég var stór stelpa,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, spurð um fyrsta starfið. Þórdís var frá unga aldri í sveit á sumrin og vann þar við hefðbundin störf eins og aðrir krakkar. Hún telur það þó ekki með sem vinnu. Það gerir hún hins vegar við starf sem hún fékk 13 ára gömul í eldhúsbíl á vegum ferðaskrifstofu sem ferðamálafrömuðurinn Úlfar Jacobsen rak um þriggja áratuga skeið. Úlfar hóf að bjóða bæði íslenskum og erlendum ferðamönnum upp á sérstakar hálendisferðir undir merkjum Iceland Safari. Þórdís segist hafa verið fjallageit alla tíð frá barnæsku og fullyrðir hún hafi nánast alist upp á fjöllum. Úlfar var afi bestu vinkonu Þórdísar í æsku og því lá beinast við að sækja um starf hjá honum.

Á kúlutjald og jeppa

„Ég sótt stíft í að fá þetta starf,“ segir Þórdís nú. En ferðirnar sem táningurinn fór í á sínum tíma tóku að jafnaði um hálfan mánuð. Oftast var farið austur á land og þaðan upp á hálendið, í Mývatnssveit, suður Sprengisand og norður Kjöl. Í eldhúsbílnum var tekinn saman morgumatur, hádegissnarlið smurt og kvöldmatur eldaður fyrir þreytta ferðalanga. Þórdís vann í eldhúsbílnum í fimm eða sex sumur en varð svo leiðsögumaður um hálendið eftir tvítugt.

Hún fer enn mikið á fjöll. „Ég er algjör fjallatútta. Ég hef aldrei átt fellihýsi, tjaldvagn eða neitt svoleiðis heldur bara jeppa og kúlutjald og fer mikið á hálendið, í Herðubreiðulindir og Öskju,“ segir Þórdís sem fer á hreindýraveiðar í Eskifirði og Reyðarfirði í sumar og ætlar að nýta tækifærið til að fara að Snæfelli. Hún hefur ekki ákveðið hvort atlaga verði gerð að því að komast á toppinn að þessu sinni