Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að ef eitt fyrirtæki eða samsteypa eignast yfir 33% í félagi verði að meta það hverju sinni hvort veita eigi undanþágu frá tilboðsskyldu.

Samkvæmt 5. mgr., 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti er FME heimilt að veita undanþágu frá tilboðsskyldu „ef sérstakar aðstæður mæla með því" eins og segir í lögunum. FME nýtti sér þessa heimild í vikunni þegar Íslandsbanki leysti til sín 42% hlutafjár í Icelandair Group. Undanþágan gildir í 12 mánuði.

Gunnar segir að undanþágan hafi verið veitt í ljósi þess að nú ríki óvenjulegir tímar. Tilgangur Íslandsbanka sé ekki að reka félagið heldur að hagræða og vernda sín útlán. Samkvæmt nýsamþykktum lögum á Alþingi miðast yfirtökuskylda í félagi við 33%. Áður miðaðist hún við 40%.