„Ég get staðfest að það eru líkur á töluverðum undanskotum frá skatti í ferðaþjónustu og þau snúa ekki aðeins að gististarfsemi. Miðað við okkar úttektir er ferðaþjónustan sennilega sú atvinnugrein þar sem undanskot eru mest,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við Morgunblaðið .

Skúli segir að ferðaþjónustan sé margþætt og ekki bundin við gististarfsemi. Þar sé einnig um að ræða þætti eins og akstur, veitingastarfsemi og leiðsögn og gildi þar mismunandi reglur um skattheimtu.

„Viðamikilli rannsókn okkar á svartri atvinnustarfsemi hér á landi og undanskotum hennar frá tekjuskatti og virðisaukaskatti er að ljúka og er stefnt að því að kynna niðurstöður hennar í vor,“ segir Skúli Eggert í samtali við Morgunblaðið.