Íslenska ríkið mun þurfa að innleiða nýja tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar. Hjá því verður varla komist samkvæmt minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Tilskipunin (2014/49) kveður á um að fastsetja þarf tryggingvernd við 100.000 evrur eða 15,5 milljónir króna, sem greiða þarf út á 7 virkum dögum falli bankar. Þetta er gríðarlega mikil breyting því núgildandi lög, sem taka mið af tilskipun 1994/19, kveða á um tryggingavernd upp á 20.000 evrur eða 3,1 milljón króna að lágmarki og svigrúm upp á þrjá mánuði til að greiða upphæðina.

Nýtt innistæðutryggingakerfi var rætt á sameiginlegum fundir utanríkismálaefndar og efnahags- og viðskiptanefndar í fyrradag. Þar voru lögð fram tvö minnisblöð, annars vegar minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hins vegar minnisblað frá utanríkisráðuneytinu.

Á fundinum komu meðal annars fram áhyggjur um að íslenskt hagkerfi ráði ekki við þessa háu tryggingavernd, sem kveðið er á um í nýju tilskipuninni. Þá vaknar spurning hvort hægt sé að sækja um undanþágu en í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins er aðeins farið yfir það mál.

„Erfitt er að koma auga á hvaða ákvæði tilskipunarinnar það eru sem kalla á nauðsyn undanþága, hvort það skuli vera hærri tryggingarverndin eða óljósar tilvísanir um ríkisábyrgð," segir í minnisblaði efnahags- og fjármálaráðuneytisins. „Þá verður ekki litið fram hjá því að undanþága frá - eða ákvörðun um að innleiða ekki - ákvæðum tilskipunar 49/2014 kynni að hafa skaðleg áhrif á fjármálakerfið í heild svo og möguleika þess til að fjármagna sig á erlendum lánsfjármörkuðum. Slík undanþága yrði trauðla túlkuð öðru vísi en sem ótti innlendra stjórnvalda um að bankakerfið stæði ótraustum fótum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.