Talið er að einkavæðingarnefnd Slóveníu muni ákveða í vikulok við hverja verði haldið áfram viðræðum um kaup á hlut í fjarskiptafélaginu Telekom Slovenje, en íslenska fjarskiptafélagið Skipti er annar eftirstandandi aðila í söluferlinu. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Ákveðið verður hvort haldið verður áfram viðræðum við báða aðila eða einungis annan, en heimildarmaður Viðskiptablaðsins í Slóveníu telur allt benda til þess að Skipti muni tryggja sér hlutinn. Slóvenska fjármálaráðuneytið segist hafa hug á að ganga frá sölu á hlut sínum í byrjun annars ársfjórðungs þessa árs.

Einkavæðingarnefndin útilokaði ungverska fyrirtækið Magyar Telekom frá kaupunum í liðinni viku og standa því eftir tilboð Skipta og sameiginlegt tilboð Bain og Axos-sjóðanna.

Fjármálaráðuneytið í Slóveníu segir að einkavæðingarnefndin sé sannfærð um að salan nái fram að ganga. Tilboðin séu bæði innan þeirra verðhugmynda sem lagt var upp með og með hæfilegu yfirtökuálagi.

Haft var eftir meðlimi slóvenska þjóðarflokksins, sem situr í ríkisstjórn, að tilboðin væru í kringum 400 evrur á hlut og að flokkurinn teldi það jafnframt of lágt. En félagið stóð í 327 evrum á mánudag. Markaðsvirði fyrirtækisins er í kringum 220 milljarðar króna, sem þýðir að tilboð fyrirtækjanna eru í kringum 270 milljarðar króna.

Slóvenska ríkið á 74% hlut í Telekom Slovenje, ýmist beint eða gegnum fjárfestingarsjóði í eigu ríkisins, en ríkið hyggst halda eftir 25% hlut til lengri tíma með það að augnamiði að hafa vægi í mikilvægum ákvarðanatökum í framtíðinni.