Ný samsetning vísitölunnar kemur á óvart, einkum vægi einstakra félaga, að sögn greiningardeildar Landsbankans en Kauphöll Íslands kynnti nýja samsetningu Úrvalsvísitölunnar á föstudaginn síðasta.

?Mismunandi vægi félaga innan Úrvalsvísitölunnar skiptir máli fyrir fjárfesta þar sem bæði sjóðir og fagfjárfestar haga oft eignasamsetningu í samræmi við samsetningu vísitölunnar," segir greiningardeildin.

Vægi Kaupþings banka mun aukast um 4% í 38% í úrvalsvísitölunni. ?Ástæðuna má rekja til þess að ekki er lengur litið svo á að eignarhlutur Exista í Kaupþing banka takmarki flot hlutabréfa bankans. Þessi niðurstaða verður að teljast athyglisverð í ljósi þess að eignarhlutur Exista í Kaupþing banka hefur aukist frá áramótum þegar eldri samsetning Úrvalsvísitölunnar var reiknuð," segir greiningardeildin.

Þá bendir hún á að stjórnarformaður VÍS, sem er 100% í eigu Exista, er stjórnarmaður í Kaupþing banka en virðist þó ekki vera talinn tengdur Exista. Engu að síður á Exista 21,10% hlut í Kaupþingi banka.

?Orðalag í reglum Kauphallarinnar er óskýrt hvað varðar innherja, þótt tilgangur reglanna sé skýr," segir greiningardeildin.

Hún segir að ekki sé gætt samræmis við flotleiðréttingu hlutabréfa ýmissa félaga. ?Má þar t.a.m. nefna að við flotleiðréttingu á bréfum Actavis og Straums virðist vera tekið tillit til innherjatilkynninga í Kauphöllinni, jafnvel þótt bréfin séu ekki á nafni innherjanna. Hins vegar er ekki tekið tillit til flaggana í öðrum tilfellum, t.d. þegar verið er að flotleiðrétta bréf FL Group. Í sumum tilfellum tengjast slíkar flagganir þó innherjum. Fleiri vafamál eru fyrir hendi, sem ekki verða tíunduð hér," segir greiningardeildin.

Þetta misræmi getur haft veruleg áhrif á vægi hvers félags innan vísitölunnar, að sögn greiningardeildar sem bendir á: ?Ef leiðrétt er fyrir hlut Exista í Kaupþing banka minnkar vægi bankans úr 38% í 32%. Ef flotleiðrétt er fyrir FL Group með sama hætti og gert er fyrir Actavis og Straum eykst vægi félagsins innan vísitölunnar úr 3,3% í 4,3%."