„Fyrir mér hljómar það mjög undarlegt að Seðlabankinn skuli sjá skýr merki þess að eftirspurn sé að dragast saman en ákveða á sama tíma ekki að lækka vexti sem þegar eru ógnarháir. Peningastefna á að vera framsýn og taka mið af því ástandi sem við búumst við en ekki því sem við höfum haft. Mér sýnist ákvörðun bankans ganga gegn þessu grundvallarsjónarmiði,“ segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Bjarni bendir á að vissulega sé verðbólga mikil og það eitt  og sér ætti að gefa tilefni til að hafa vexti háa.

„Framkvæmd og árangur peningastefnunnar hingað til gefur hins vegar ekkert tilefni til að ætla vextir hafi mikil áhrif á verðbólguna. Þetta snýst auðvitað mikið til um hvernig gengi krónunnar þróast.  Ég óttast að eina raunhæfa leiðin sem Seðlabankinn sjái til að nálgast verðbólgumarkmiðið sé að keyra hagkerfið niður í djúpa efnahagslægð með kæfandi vaxtastigi. Hrakspár bankans um þróun fasteignaverðs er einn liður í þessari vegferð bankans. Þessi leið er hins vegar með öllu óásættanleg og í mínum huga er ljóst að sjálfstæður gjaldmiðill er alltof dýru verði keyptur“.