Gallup birti stórkaupavísitölu sína í morgun en sérstaka athygli vekja miklar sveiflur í fyrirhuguðum kaupum á húsnæði, segir greiningardeild Kaupþings banka sem hefur notað vísitöluna sem vísbendingu um eftirspurn á fasteignamarkaði.

?Vísitalan hækkaði gríðarlega í mars síðastliðnum sem var nokkuð úr takti við þá þróun sem hafði verið mánuðina á undan og benti til minni fasteignaeftirspurnar. Nú hefur aftur á móti komið í ljós að þessi húsnæðiskaupaáhugi var aðeins bundinn við einn mánuð því í mælingunni núna sýnir svipaðan ef ekki minni áhuga en í janúar," segir greiningardeildin.

Það er þrautinni þyngra að gera grein fyrir frávikinu, ?nema um sé að ræða mæliskekkju en eftirspurn eftir húsnæði virðist hafa haldið áfram að dragast saman þvert á spá stórkaupavísitölu," segir greiningardeildin.

Mynd fengin frá greiningardeild Kaupþings banka. Rauða línan merki veltu fasteignamarkaði undanfarna sex mánuði en sú bláa merkir út frá stórkaupavísitölu Gallups.

?Við síðustu útgáfu Peningamála voru ein helstu rök bankans fyrir 75 punkta hækkun stýrivaxta að mikil undirliggjandi eftirspurn virtist vera á fasteignamarkaði. Hins vegar virðist Stórkaupavísitalan hafa bent í ranga átt þar sem að velta á fasteignamarkaði hefur ekki aukist og hækkun fasteignaverðs aðeins numið 1% síðan í mars," segir greiningardeildin.