Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Under Armour hyggur nú frekari starfsemi í Evrópu. Under Armour, sem er í eigu bandaríska milljarðamæringsins Kevin Plank, tilkynnti í upphafi vikunnar um ráðningu Karl-Heinz Maurath, fyrrv. framkvæmdastjóra þýska íþróttavöruframleiðandans Adidas, en honum er ætlað að stýra Under Armour í Evrópu. Á vef bandaríska tímaritsins Forbes er ráðning Maurath sett í samhengi við nýhafna auglýsingaherferð Under Armour í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og Sviss.

Þetta hefur vakið nokkra athygli í heimi íþróttavöruframleiðanda, þar sem samkeppnin í Evrópu hefur hingað til helst verið á milli Adidas, Nike og Reebok.

Under Armour hefur smátt og smátt verið að auka við starfsemi sína í Evrópu. Nú í haust hefst fimm ára samstarf félagsins við enska knattspyrnuliðið Tottenham Hotspur þar sem Under Armour verður helsti bakhjarl félagsins.

„Hingað til höfum við einbeitt okkur að bandaríska markaðnum þegar kemur að markaðssetningu,“ sagði Stuart Redsun, aðst.framkvæmdastjóri markaðssviðs Under Armour, í samtali við Forbes.

„Við teljum að það er kominn tími til að segja sögu okkar í Evrópu, vegna þess að við höfum byggt áreiðanleika með nærveru okkar á þessu sviði."

Under Armour er nú þegar með styrktarsamning við velska rugby sambandið, ísraelska knattspyrnuliðið Maccabi Tel Aviv og gríska knattspyrnuliðið Aris. Þess utan er félagið með samninga við einstaka leikmenn í ensku, skosku og frönsku deildinni í knattspyrnu.

Kevin Plank er nr. 1.075 á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Hann hefur verið ófeiminn við að viðra markmið sín um frekari útrás Under Armour. Félagið rekur nú 18 þúsund sölustaði í N-Ameríku en aðeins fjögur þúsund samanlagt í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku.

Kevin Plank, eigandi Under Armour.
Kevin Plank, eigandi Under Armour.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kevin Plank, eigandi Under Armour.