Stefnt er að opnun verslunar íþróttavörufyrirtækisins Under Armour í Kringlunni 11. ágúst næstkomandi. Var nýlega undirritaður samningur milli Altis, Reita og Rekstrarfélags Kringlunnar þess efnis.

Under Armour var stofnað í Bandaríkjunum árið 1996 af Kevin Plank, og hafa vörur fyrirtækisins náð vinsældum meðal íþróttamanna.

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, fagnar því að samkomulag hafi náðst um opnun Under Armour verslunar í Kringlunni.

„Við trúum því að þessi viðbót eigi eftir að leggjast vel í viðskiptavini okkar enda er Under Armour eitt vinsælasta vörumerki í sportfatnaði í dag. Við viljum bjóða viðskiptavinum Kringlunnar sem fjölbreyttast val þegar kemur að verslun, veitingum og þjónustu og þetta er einn liðurinn í því,“ segir Sigurjón í fréttatilkynningu.