Sportvörufyrirtækið Under Armour hefur unnið höfundarréttindamál fyrir kínveskum dómstólum gegn fyrirtæki þar í landi sem þótti vera að herma eftir stíl og merki bandaríska fyrirtækisins. Þarf nú fyrirtækið Fujian Tingfeilong Sports Goods Co. sem framleitt hefur vörur undir vörumerkinu Uncle Martian að greiða því bandaríska 2 milljónir yuan, eða andvirði um 31 milljón íslenskra króna í skaðabætur.

Merki Uncle Martian eru U og M sett saman þannig að þau myndi H, á ekki ósvipaðan hátt og gerist með U og A hjá Under Armou Kínverska fyrirtækið hóf framleiðslu á vörunum fyrir rúmu ári og hóf Under Armour að kæra málið á síðasta ári og var framleiðslan stöðvuð í nóvember á síðasta ári.

Er dómurinn sá nýjasti í röð höfundarréttarmála vestrænna ríkja gegn kínverskum eftirlíkingum sem farið hafa þeim í hag. Dæmdi hæstiréttur landsins á síðasta ári að kínveskt sportvörufyrirtæki gæti ekki selt vörur með nafni NBA stjörnunnar Michael Jordan í kínversku letri.

Facebook vann mál gegn kínversku drykkjarvörufyrirtæki sem hafði eignað sér vörumerkið face book. Hins vegar hafa ekki öll slík mál endað sem sigur fyrir vestrænu fyrirtækin. Tapaði Apple fyrir leðurframleiðslufyrirtæki sem merkti veski og símahulstur sín með IPHONE í hástöfum. Apple hyggst kæra málið áfram.