Hvort lánardrottnar Salt Investments, félags Róberts Wessman, fái endurgreitt að fullu byggir á því hvað Glitnir fær fyrir eign sína í Actavis sem áður var í eigu Salts, og hvort eða á hvaða hátt Glitnir innheimtir skuldir vegna kaupa Salts í Glitni fyrir hrun. Árni Harðarson, forstjóri Salts, segir að vinna félagsins í dag snúist alfarið um að gera upp við lánardrottna. „Það fer eftir því hvort að þessar skuldir eru raunverulegar skuldir eða ekki,“ segir Árni, spurður um hvort grundvöllur sé fyrir rekstri félagsins. Eina hlutabréfaeign félagsins, sem ekki er komin í hendur kröfuhafa eða merkt þeim, er 11% hlutur í Vefpressunni.

Salt skuldar Glitni um 9,5 milljarða króna og gamla Landsbankanum um 4 milljarða, samkvæmt gögnum um samruna þriggja dótturfélaga Salts við Salt Investments. Samruninn fór fram í sumar, en um er að ræða félög með litla eða enga starfsemi í dag, eingöngu skuldir sem mestanpart eru við móðurfélagið. Eigið fé félagsins er neikvætt um 16,9 milljarða króna.

Einfalda starfsemina

Með því að sameina félögin við móðurfélag er reynt að einfalda reksturinn og samhæfa hann, segir Árni. Inni í félögunum þremur sé engin starfsemi viðhöfð og skuldir þeirra eingöngu við Salt móðurfélag, ef frá eru taldar skuldir vegna útvarpsgjalds.

Skuldir hins sameinaða félags námu við síðustu áramót um 20,5 milljörðum króna. Samkvæmt ársreikningi Salts fyrir síðasta ár eru um 17 milljarðar á gjalddaga í ár. Í skýrslu matsmanna um samrunann segir að ljóst sé að lánardrottnar munu ekki geta innheimt kröfur sínar að fullu. Árni segir endanlega niðurstöðu byggja á uppgjöri við Glitni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Árni Harðarson, forstjóri Salts, vill koma eftirfarandi athugasemd á framfæri, í kjölfar fréttar Viðskiptablaðsins:

„Við uppgjör við lánadrottna hafa eignir verið afhentar og samið verður um verðmæti þeirra. Vonast er til þess að umræddar eignir og væntanlegt samkomulag um uppgjör eigna og skulda verði á þá leið að ekkert verði afskrifað vegna þessarra lánveitinga. Það er því rangt að halda því fram að eftir uppgjör við lánadrottna standi eftir 20 milljarða skuldir og leiðréttist það hér með.“