Delta Two, fjárfestingarsjóður í eigu stjórnvalda í Katar sem hefur undanfarin verið í yfirtökuviðræðum við forsvarsmenn bresku verslunarkeðjunnar Sainsbury, er undir þrýstingi um að auka hlutfall hlutfjár í fyrirhuguðu yfirtökutilboði sjóðsins á Sainsbury. Þessi þrýstingur kemur í kjölfar þess óróa sem ríkt hefur á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum síðustu vikur, að því er fram kemur fram í frétt Financial Times. Sökum þess að skortur á lausafé á fjármagnsmarkaði hefur aukist og fjármagnskostnaður hækkað er viðbúið að það muni reynast erfiðara en áður fyrir fjárfestingarsjóðinn að takast ætlunarverk sitt um að ná yfirráðum í Sainsbury.

Financial Times hefur eftir heimildarmanni sínum sem vel þekkir til gangs mála að núna sé rétti tíminn fyrir Delta Two til að auka hlutfall hlutafjár í fyrirhuguðu tilboði sínu þar sem ljóst sé að tími skuldsettra yfirtaka á fjármálamarkaði sé liðinn - í bili að minnsta kosti.

Delta Two greindi frá því 19. júli síðastliðinn að sjóðurinn hygðist gera yfirtökutilboð í Sainsbury sem myndi hljóða upp á 600 pens á hlut í félaginu og að bankarnir ABN Amro, Credit Suisse og Dresdner Kleinwort myndu veita veita sjóðnum lánsfé til að fjármagna yfirtökuna. Samkomulag Delta Two við bankana um að fjármagna yfirtökuna var hins vegar gert áður en væringar á fjármálamarkaði hófust í síðasta mánuði. Sérfræðingar telja því sennilegt að fjárfestingarsjóðurinn muni vilja fá frekari staðafestingu frá bönkunum um að þeir muni standa við fyrri skuldbindingar sínar.

Formlegt yfirtökutilboð af hálfu katarska fjárfestingarsjóðsins, sem á fyrir um 25% hlutafjár í Sainsbury, hefur enn ekki verið gert, en sjóðurinn hefur engu að síður sagst ætla að greiða 4,6 milljarða punda með nýjum hlutabréfum í Delta Two, en afganginn - um það bil 6 milljarða punda - með peningum. Stjórn Sainsbury hefur hins vegar núna beðið hina hugsanlegu nýju eigendur verslunarkeðjunnar um að minnka hlutfall peninga í tilboðinu. Það er nauðsynlegt fyrir Sir Philip Hampton, stjórnarformann Sainsbury, að fá fjárfestingarsjóðinn til að koma fram með betra yfirtökutilboð til að tryggja stuðning Sainbury-fjölskyldunnar, sem á um 18% hlutafjár í verslunarkeðjunni, en hún hefur nú þegar sett sig upp á móti yfirtöku Delta Two miðað við það tilboð sem sjóðurinn hefur sagst ætla að gera.