Ríkisskattstjóri hefur tekið fjölda fyrirtækja til athugunar vegna skila á virðisaukaskatti og nær athugunin m.a. til fyrirtækja í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun. Horfir ríkisskattstjóri m.a. til fyrirtækja þar sem innskattur hefur verið hærri en útskattur af seldri vöru og þjónustu og líka ef virðisaukinn er lítill.

„Það er verið að skoða alls konar atriði til að tryggja að yfirferðin sé að því leyti fjölbreytt. Fyrirtækin eru í fæstum tilfellum tekin í allsherjar yfirhalningu, nema á grundvelli skattrannsóknar. Í þessu skatteftirliti eru könnuð afmörkuð atriði í þessari lotu. Í næstu athugun kunna önnur atriði að verða könnuð.Þetta er því þáttur í fjölbreyttu eftirliti.

Nú erum við að leggja talsvert mikla áherslu á ákveðnar atvinnugreinar, sem eru mannvirkjagerð og ferðaþjónusta, með það fyrir augum að kanna þar stöðuna. Báðar þær atvinnugreinar eru fjölbreyttar, auðvitað alls konar flóra og þar með talið á virðisaukaskattsskilunum,“ segir Skúli Eggert í samtali við Morgunblaðið um málið.