Mikil undiralda er á meðal stórnotenda raforku á Íslandi. Sú umræða tengist þeirri staðreynd að hérlendis er í dag ekki til nein umframorka og því nánast slegist um hvert megavatt. Hún tengist líka endurnýjun raforkusaminga eins og til dæmis samningaviðræðum Norðuráls og Elkem við Landsvirkjun en raforkusamningar þessara fyrirtækja renna út á næstu árum. Það eru því ekki allir sem fagna uppbyggingu kísilverksmiðja á Íslandi því samfara henni hefur samkeppni um orku aukist gríðarlega. Forsvarsmenn orkufyrirtækjanna fagna henni samt vafalaust og halla sér aftur í stólnum við samningaborðið.

Eftir að Thorsil samdi við Landsvirkjun spurðist út að fyrirtækið myndi greiða 43 dollara á megawattsstund með flutningskostnaði. Ljóst er að þetta verð er margfalt hærra en það sem til dæmis Norðurál, Fjarðaál og Elkem greiða í dag.

Ýmsir hagsmunaaðilar hafa á opinberum vettvangi reynt að tala raforkuverð niður. Viðskiptablaðið hefur rætt við marga vegna þessa og til eru þeir sem fullyrða að til dæmis verksmiðja Thorsil sé ekki arðbær. Blaðið hefur samt upplýsingar um að forsvarmenn Thorsil beri sig mjög vel að telji að verksmiðjan verði ein sú arðbærasta í heimi. Aðeins verksmiðjur í Noregi og Brasilíu verði hagkvæmari og það skýrist af því að þar greiði menn fyrir raforku í sinni heimamynt. Norska krónan sé mjög veik sem og brasilíska realið.

Það eru ekki bara álverin og Elkem sem eiga í samkeppni við kísilverksmiðjurnar um orku. Kísilverksmiðjurnar eiga líka í innbyrðis samkeppni því þrjár af þeim hyggjast auka framleiðsluna þegar fram líða stundir með því að stækka sínar verksmiðjur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .