*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 19. maí 2013 19:20

Undirbjóða ekki keppinauta

Forstjóri Hörpu hafnar því að stunda undirboð á ráðstefnumarkaði.

Ritstjórn

Við höfum ekki undirboðið nokkurn skapaðan hlut,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, spurður um orðróm þess efnis að Harpan undirbjóði aðra ráðstefnu- og fundarsali. Harpan er nú til rannsóknar hjá eftirlitsstofnun ESA en Icelandair kvartaði til stofnunarinnar. Kannað er hvort Harpa hafi hlotið það sem telst ólögmæt ríkisaðstoð á þeim samkeppnismarkaði sem ráðstefnuhald er.

„Ég bað KPMG í ljósi þessarar umræðu um að framkvæma sérstaka athugun á því hvar við stæðum miðað við hliðstæða sali í Reykjavík,“ segir Halldór. Könnunin sýnir að þeir salir Hörpu sem eiga sér keppinauta í Reykjavík eru að meðaltali 20-25% dýrari. „Þá erum við bara að tala um listaverðið,“ segir Halldór.

Spurður um samninga út frá listaverði segir hann Hörpu hafa minna svigrúm til slíks en marga aðra. „Við erum hlutfallslega dýrt hús. Við höfum einfaldlega ekki grundvöll til að undirbjóða og eigum ekki að gera það,“ segir Halldór. „Veitingareksturinn er rekinn sjálfstætt svo að við getum ekki slegið af salarleigu vegna veitinga með sama hætti og margir aðrir,“ bendir Halldór á.

Ítarlegt viðtal við Halldór má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.