Ríkisstjórn Bandaríkjanna undirbýr nú að leggja á tolla sem nema 200% af söluandvirði rússnesks áls á næstu dögum, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg. Slík tollahækkun myndi líklega draga nær alfarið úr innflutningi frá Rússlandi, næst stærsta álframleiðanda heims á eftir Kína.

Bandarísk stjórnvöld hafa verið með til skoðunar síðustu mánuði að grípa til viðskiptaþvingana á rússneskt ál.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, á þó enn eftir að gefa grænt ljós á tollahækkunina en áhyggjur hafa verið uppi um að slík aðgerð myndi hafa neikvæð áhrif á bandarískan iðnað, þar á meðal bílaframleiðslu.

Rússneskt ál hefur vegið um 10% af heildar innflutningi Bandaríkjanna á áli í venjulegu árferði. Hlutfallið hefur þó lækkað niður í 3% á síðustu mánuðum, eftir að greint var frá því að bandarísk stjórnvöld væru að skoða viðskiptabann eða tollahækkun.

Í umfjöllun Bloomberg segir að tollahækkunin sé til þess fallinn að þrengja að heimsmarkaði með áli og ýta verði málmsins upp.