Kaupfélag Skagfirðinga, Gasfélagið og Sveitarfélagið Skagafjörður hafa gert með sér samkomulag um stofnun undirbúningsfélags um að reisa koltrefjaverksmiðju á Sauðarkróki. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS, Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Gasfélagsins og Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri Skagafjarð undirrituðu samkomulagið á Sauðárkróki í dag að viðstöddum Össuri Skarphéðinssyni Iðnaðarráðherra og Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

„Bygging Koltrefjaverksmiðju er spennandi og krefjandi verkefni. Hér náum við vonandi að sameina arðsamt verkefni þeirri sýn að hægt sé að nýta tækniframfarir til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda með því að framleiða efni sem hefur sama eða meiri styrk, en kemur í stað mun þyngri málma. Koltrefjar eiga mikla framtíð fyrir sér og áhugavert að sjá hvort við eigum erindi inn á þann markað,“ segir Bjarni Ármannsson í tilkynningunni.

Heildar hlutafé undirbúningsfélagsins er 25 milljónir króna og munu KS og Gasfélagið leggja til 10 milljónir hvort félag og sveitarfélagið 5 milljónir til verkefnisins.

Verkefni hins nýstofnaða félags er að hefja þegar undirbúning að stofnun Koltrefjaverksmiðju sem ætlað er að afkasti 1.500 til 2.000 tonnum af kolefnistrefjum á ári. Áætluð raforkunotkun slíkrar verksmiðju er 10 MW og felst undirbúningur að stofnunni meðal annars í að leita samninga um hagstæð orkukaup.

Stefnt er að því að undirbúningsfélagið ljúki störum á næstu tólf mánuðum (eða fardagaári) og að þá verði tekin afstaða til þess hvort verksmiðja verði reist.

Komist aðilar að þeirri niðurstöðu að ráðast skuli í byggingu koltrefjaverksmiðju verður stofnað um hana sérstakt félag og gert um það nýtt samkomulag, á grundvelli þess samkomulags sem undirritað var í dag. Áætluð heildar fjárfesting koltrefjaverksmiðju yrði á bilinu fjórir til fimm milljarðar króna.

„ Kaupfélag Skagfirðinga hefur alla tíð látið sig miklu varða framþróun í héraðinu og í framleiðslu koltrefja sjáum við bæði tækifæri til mikillar eflingar héraðsins og svo hitt sem er ekki síður mikilvægt að efla útflutningsframleiðslu þjóðarinnar sem hlýtur að vera höfuðmarkmið allra við þær aðstæður sem eru í landinu núna,” segir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS í tilkynningunni.