Hópmálssókn er í undirbúningi gegn fjarskiptafyrirtækinu Vodafone en markmið þess er að fá bætt það tjón sem viðskiptavinir fyrirtækisins telja sig hafa orðið fyrir vegna árásar hakkara á vef Vodafone og leka á upplýsingum af vefsíðu fyrirtækisins í lok nóvember í fyrra. Málsóknarfélag birtir auglýsingu þessa efnis í Fréttablaðinu í dag.

Á vef félagsins kemur fram að Málsóknarfélag hafi verið stofnað 14. febrúar síðastliðinn. Það hafi látið rita lögfræðilega álitsgerð vegna lekans. Tilgangur hennar er að varpa ljósi á það hvort Vodafone beri skaðabótaábyrgð á tjóni vegna lekans. Álitsgerðin stendur umsækjendum og félagsmönnum til boða til að gera þeim kleift að meta réttarstöðu sína.

Félagið mun svo krefjast þess að fá bætt tjón félagsmanna vegna leka af vef Vodafone. Dómsmálið skal félagið reka í eigin nafni fyrir hönd þeirra sem ganga í félagið og í umboði þeirra. Hæstaréttarlögmennirnir Skúli Sveinsson og lögmannstofan Lögvernd munu annast fyrirhugaðan málarekstur, að því er segir á vef félagsins.