Andstæðingar stóriðju í Helguvík vinna nú að hópmálsókn gegn United Silicon til þess að fá starfsleyfi fyrirtækisins ógilt. Fréttastofa RÚV greinir frá því að forsvarsmenn hópsins hafi nú þegar rætt við lögfræðing og að um 30 manns hafi lýst áhuga á að taka þátt í málsókninni á innan við sólarhring.

Engin starfsemi hefur þó verið í verksmiðjunni síðan 1. september síðastliðinn en fyrirtækið fór í greiðslustöðvun 14. ágúst sem var svo framlengd til 22. janúar.

Þórólfur Júlían Dagsson forsvarsmaður hópsins segir að starfsleyfi United Silicon hafi byggt á lýsingum á verksmiðjunni eins og hún hafi verið kynnt í upphafi en síðan hafi hún tekið breytingum.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um að stjórn United Silicon hyggist funda með mögulegum kaupendum nú í byrjun árs en átta fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að eignast verksmiðjuna.