Heimastjórn Skotlands styður áform breskra stjórnvalda um að segja sig úr fjölþjóðasamningi um sameiginlegan aðgang að fiskimiðum aðildarþjóðanna. Aðildarþjóðirnar að fiskveiðisamningnum sem kenndur er við London eru auk Bretlands, Frakkland, Belgía, Þýskaland, Írland og Holland.

Felur samningurinn í sér gagnkvæmt aðgengiþ þjóðanna að fiskveiðilögsögum ríkjanna á milli 6 og 12 mílur frá landi, en undir hann var skrifað árið 1964. Segir Michael Gove, umhverfisráðherra Bretlands, riftun samningsins mikilvægt skref í átt að því að landið taki á ný stjórn fiskveiða sinna í eigin hendur.

Skotar styðja sjálfstæða fisveiðistefnu

Ráðherra fiskveiðimála í skosku heimastjórninni, Fergus Ewing, segist hafa ýtt á að þetta skref yrði tekið í langan tíma. „Þetta þýðir að í fyrsta sinn í 50 ár munum við geta ákveðið hverjir hafa aðgang að fiskveiðilögsögu okkar,“ segir Gove samkvæmt frétt BBC .

„Þetta er sögulegt fyrsta skref í að byggja upp okkar eigin fiskveiðistefnu nú þegar við erum að yfirgefa Evrópusambandið - skref sem mun leiða til samkeppnishæfari, hagkvæmari og um leið sjálfbærari fiskiðnaði fyrir allt Bretland.“ Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins leyfir fiskiskipum aðildarþjóða að veiða utan 12 mílna lögsögu hvers ríkis sambandsins.

Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri samtaka skoskra sjómanna lýsir jafnframt yfir stuðningi við framtakið. „Við styðjum þetta af heilum hug - aðgangur að verðmætum fiskimiðum okkar verður mikilvægt atriði fyrir okkur þegar við losnum undan sameiginlegri fiskveiðistefnu [ESB]“.

Á sama tíma hafa náttúruverndarsamtök lýst yfir áhyggjum af því hvernig fiskveiðireglum verði háttað þegar Bretland yfirgefur fjölþjóðlega samkomulagið.