*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 15. janúar 2020 19:01

Undirbúa stofnun íslenskrar farveitu

Fyrsta íslenska farveitan mun að óbreyttu líta dagsins ljós þegar ný lög um leigubifreiðar taka gildi.

Jóhann Óli Eiðsson
Forritararnir Birkir Rafn Guðjónsson og Bjarni Freyr Björnsson eru mennirnir að baki farveitunni.
Eyþór Árnason

Tveir íslenskir frumkvöðlar, Birkir Rafn Guðjónsson og Bjarni Freyr Björnsson, hafa undanfarna mánuði unnið að undirbúningi farveitu sem ýta á úr vör um leið og ný lög um leigubifreiðaakstur taka gildi. Farveitan hefur ekki enn fengið nafn en forritið sjálft er tilbúið að stærstum hluta.

„Vinnan við bakendann í forritinu, þann þátt sem sér um samskipti milli ökumanns og farþega, tók mestan í tíma en nú erum við í raun með vöru í höndunum,“ segir Birkir. Gildistökuákvæði frumvarpsins gerir ráð fyrir að breytingarnar fari í gegn sumarið 2021 en þeir félagar segja að þeir hefðu getað farið af stað með forritið strax í sumar.

Frumvarpið hefur mætt nokkurri andstöðu meðal leigubílstjóra en Birkir og Bjarni benda á að forritið geti leyst ýmis vandamál sem þeir glíma við. „Það kannast flestir við að hafa verið í partýi þar sem hringt er á bíl en síðan kemur enginn út. Það felur í sér tap fyrir bílstjórann. Í gegnum forritið fær bílstjórinn alltaf greitt startgjald,“ segir Bjarni. Þá leysi forritið vanda á mannmörgum stöðum þar sem enginn veit hver á hvaða bíl.

„Að okkar mati þyrfti að tryggja að hægt verði að sækja um tilskilin leyfi rafrænt og að farveitur geti sótt um leyfi fyrir hönd bílstjóra. Sá myndi í raun sækja um í gegnum forritið og það færi síðan áfram til Samgöngustofu. Þá þyrfti gagnagrunnur um virk leyfi að vera opinn svo neytandi geti ávallt tryggt þegar hann pantar bíl að enginn sé að keyra sem hefur ekki réttindi til þess,“ segir Bjarni.

Samkvæmt frumvarpinu verður það skylda að hafa leyfisskírteini sýnilegt í bifreið til sönnunar á að bifreið hafi leyfi til starfans. Að mati frumkvöðlanna er það bersýnilega óþarft þegar kemur að farveitum.

„Með snjallforritinu getur neytandinn séð um leið hvort viðkomandi hafi ekki pottþétt leyfi til starfans og því óþarft að hafa útprentað plagg sem segir það sama. Þá geta stjórnendur forritsins í raun tekið hann úr kerfinu með einum smelli ef hann missir leyfið,“ segir Birkir.

Vinna að „samferða“ möguleika

Forritið verður útbúið hefðbundnum eiginleikum sem fólk ætti að kannast við erlendis frá í gegnum Uber og Lyft. Þeir félagar hafa þó í hyggju að bjóða upp á ýmsa möguleika til viðbótar. „Til að mynda ætlum við að bjóða upp á „samferða“ möguleika þannig að á leiðinni, ef þú ert opinn fyrir því, geti annar komið upp í bílinn,“ segir Bjarni og Birkir bætir við að „slíkt sé bæði ódýrara fyrir neytandann, þar sem það lækkar gjaldið hans, og betra fyrir bílstjórann sem fær meira í sinn hlut. Þá sparast einnig ferð sem er gott fyrir umhverfið svo allir græða.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar síðasta ár eru ræddar í samhengi við umsvifin á árinu
 • Aukin áhersla á nýsköpun og meiri áhyggjur af sætaframboði koma í ljós í nýrri viðhorfskönnun meðal ferðaþjónustuaðila
 • Vopnahlé og fyrsta samkomulag valdhafa í viðskiptadeilum Bandaríkjanna og Kína er skoðað
 • Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar og handhafi Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar ræðir um listina að mistakast
 • Götótt skipulag í vörnum gegn peningaþvætti er rætt við einn helsta sérfræðing málaflokksins
 • Áhrif hugmynda um slæm áhrif af kolefnisútblæstri á ferðahegðun er skoðuð
 • Birna Einarssdóttir bankastjóri Íslandsbanka er í ítarlegu viðtali
 • Úttekt á miklu tapi af útrás íslensku kortafyrirtækjanna
 • Svipmyndum er brugðið upp af Skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins
 • Umfjöllun um gagnsemi gagna úr skýjalausnum Microsoft
 • Nýr forstjóri Wise lausna, Jóhannes Helgi Guðjónsson er tekinn tali
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um látinn Íhaldsmann
 • Óðinn skrifar um Íransvandann