Möguleikinn á olíufundi á Drekasvæðinu felur í sér mikil sóknarfæri fyrir Austurland og landið allt, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Að hans mati myndi undirbúningsvinna vegna hugsanlegs olíufundar leiða til jákvæðrar keðjuverkunar og gæti bætt lánstrausts Íslands. Greint er frá þessum skoðunum forsætisráðherrans í Fréttablaðinu í dag.

„Ég hef mikla trú á framtíð Íslands og hún byggist ekki hvað síst á þessum risastóru tækifærum sem við erum að ræða hér í dag,“ sagði Sigmundur á atvinnumálaráðstefnu Austurbrúar á Hallormsstað í gær.

Samkvæmt frásögn Fréttablaðsins sagði Sigmundur að norðurslóðamál væru mjög ofarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar og þau mál bæru oft á góma í samskiptum við fulltrúa erlendra ríkja. „Á hverjum einasta fundi sem ég hef átt með fulltrúum erlendra ríkja hefur þetta verið eitt aðalmálið - og ekki endilega að mínu frumkvæði," sagði Sigmundur Davíð.

Sigmundur sagði reyndar að trúin ein á að olía gæti fundist gæti dugað til að mikilla áhrifa. Undirbúningsvinna og rannsóknir hafi áhrif á fjárfestingu og uppbyggingu og jafnvel fjárhag ríkisins.