Stjórn Dagsbrúnar hf. tilkynnti hinn 12. september sl. að hún hyggðist leggja til við hluthafafund félagsins að félaginu yrði skipt í tvö félög; 365 hf. Og Teymi hf., undirbúningur að stofnun Teymis er nú hafinn, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ólafur Þór Jóhannesson, löggiltur endurskoðandi, mun verða framkvæmdastjóri fjármálasviðs fjarskipta- og upplýsingatæknifélagsins Teymis hf., Ólafur mun m.a. hafa yfirumsjón með fjármálum fyrir samstæðu Teymis hf., sinna samskiptum við lánastofnanir, greiningardeildir bankanna og fjárfesta. Þá mun Ólafur bera ábyrgð á áhættustýringu, reikningsskilum og áætlanagerð ásamt því að sitja í stjórnum dótturfélaga Teymis. Hann mun fyrst um sinn starfa hjá Og fjarskiptum ehf. en í kjölfar skiptingu Dagsbrúnar hf. í tvö félög, mun hann hefja störf hjá Teymi.

Ólafur er viðskiptafræðingur (cand. Oecon) af reikningshalds- og endurskoðunarsviði Háskóla Íslands frá árinu 1996. Hann fékk löggildingu til endurskoðunarstarfa á árinu 2000 og hefur starfað hjá PricewaterhouseCoopers hf. (PwC) frá ársbyrjun 1996. Hann hefur verið meðeigandi að PwC frá árinu 2003. Þá hefur hann verið aðjúnkt við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2000 og kennt við BS, MS og MBA nám deildarinnar.

Dóra Sif Tynes, lögfræðingur Dagsbrúnar hf., mun verða lögfræðingur Teymis hf. Dóra Sif mun hafa umsjón með lögfræðimálefnum félagsins með sérstakri áherslu á fjarskiptamál, verða ritari stjórnar og sinna regluvörslu ásamt samskiptum við Kauphöll.

Dóra Sif er með embættispróf í lögfræði (cand.iur.) frá Háskóla Íslands á árinu 1997. Hún hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1998 og lauk mastersnámi í Evrópurétti með sérstaka áherslu á samkeppnis- og fjarskiptarétt frá European University Institute, Ítalíu, árið 2000. Dóra Sif starfaði sem fulltrúi Andra Árnasonar hrl. frá 1997 til 1999. Árið 2001 hóf hún störf sem lögfræðingur í lagadeild Eftirlitstofnunar EFTA í Brussel og starfaði þar til ársins 2004 er hún var ráðin forstöðumaður lögfræði og stjórnsýslu hjá Og fjarskiptum hf. Dóra Sif hefur flutt mál fyrir EB- og EFTA-dómstólunum og ritað greinar um Evrópurétt í innlend og erlend lögfræðitímarit.