Í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar vinna iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun nú að undirbúningi fyrsta útboðs á sérleyfum til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði með góðri aðstoð og stuðningi ýmissa aðila að því er segir í frétt á heimasíðu Orkustofnunar.

Útboðstímabilið hefst um miðjan janúar 2009 og lýkur 15. maí 2009 að því er segir í fréttinni. Þar segir einnig að til þess að gæta meðalhófs í nýtingu auðlinda og gera útboðið jafnframt áhugaverðara, verður úthlutun leyfa takmörkuð við allt að fimm leyfi samtals í þessari umferð. Hver leyfishafi (eitt eða fleiri fyrirtæki saman) fær aðeins úthlutað einu leyfi. Stærð hvers leyfissvæðis verður einnig takmörkuð við allt að 800 ferkílómetra.

Tekið verður mið af vilja viðkomandi fyrirtækja til að styðja rannsókna- og menntunarsjóð olíuleitar á íslenska landgrunninu, sem stofnað verður til á vegum þeirra í samstarfi við Orkustofnun. Slíkur rannsókna- og menntunarsjóður er t.d. fyrir hendi í Færeyjum og hefur gefist mjög vel.

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi er nú til meðferðar hjá iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd að lokinni fyrstu umræðu á Alþingi. Frumvarp til laga um skattlagningu vegna olíuleitar og vinnslu er á lokastigi hjá fjármálaráðuneyti og verður lagt fyrir ríkisstjórn og þingflokka á næstu dögum.

Þessi tvö frumvörp þurfa að fá meðferð Alþingis og verða að lögum fyrir jól til að útboðið geti farið fram. Samningur við Norðmenn um einingarnýtingu kolvetnisauðlinda yfir lögsögumörk var undirritaður 3. nóvember sl., ásamt samkomulagi um útfærslu á gagnkvæmri hlutdeild í leyfum á samningssvæðinu við Jan Mayen hrygg, samkvæmt samningi þjóðanna frá 1981.