Stjórnarráðið hefur að undanförnu verið að setja aukna áherslu í gerð áætlunar skyldi hlutafjárútboð Icelandair ekki heppnast eða ef félagið skyldi fara í þrot. Frá þessu er greint á vef Túrista.

Samkvæmt heimildum Túrista er verið að athuga hvernig flytja megi núverandi flugrekstrarleyfi yfir í nýtt fyrirtæki án þess að flugsamgöngur falli niður í lengri tíma. Í því samhengi er mikilvægt að fá fljótt afnot af Boeing þotum Icelandair, af því gefnu að samningar takist við flugstéttir sem hafa réttindi á viðkomandi flugvélagerð. Of tímafrekt væri að skipta yfir í Airbus vélar.

Ekki er gert ráð fyrir því að nýtt félag gæti nýtt sömu lendingarleyfi og Icelandair er með í dag og þá sérstaklega ekki við Heathrow í London.

Huga þyrfti að meiru en bara rekstri Icelandair enda á félagið þó nokkur dótturfélög, svo sem flugþjónustufyrirtækið IGS, fraktflutningar Icelandair, ferðaskrifstofurnar Iceland Travel og Loftleiðir.

Ef Icelandair færi í þrot ættu almennir farþegar að fá farmiða endurgreidda í gegnum greiðslukortafyrirtæki.