Framkvæmda- og stofnkostnaður við hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur er áætlaður um 102 milljarðar króna. Bygging og rekstur slíkrar hraðlestar er hagkvæm fjárfesting i einkaframkvæmd sem ekki kallar á bein opinber framlög. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um mat á hagkvæmni hraðlestrar milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur sem kynnt er í dag.

Það er Ráðgjöf og verkefnastjórnun sem hafði yfirumsjón með verkefninu og gefur út skýrsluna. Isavia, Reitir, Reykjavíkurborg, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Þróunarfélag Keflavíkur, Efla, Ístak, Landsbankinn og Deloitte standa þó einnig að baki verkefninu.

Lestarleiðin sem um ræðir er 47 km, þar af 12 km í jarðgöngum. Endastöðvar lestarinnar yrðu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar annars vegar, og neðanjarðar undir BSÍ hins vegar. Gert er ráð fyrir að lestin gangi frá kl. fimm á morgnana til kl. eitt eftir miðnætti og gangi á fimm mínútna fresti á annatíma en á hálftíma fresti þar fyrir utan. Ferðatími með lestinni verður 15-19 mínútur.

Í skýrslunni segir að undirbúningur við framkvæmdirnar geti hafist á næsta ári en framkvæmdir þremur árum síðar. Rekstur gæti mögulega hafist 2023.

Skýrslan sem kynnt er í dag er ekki sú fyrsta sinnar tegundar. Sambærilegar skýrslur voru unnar 2002 og 2009 en þá þótti verkefnið ekki hagkvæmt vegna þess að tekjur stæðu ekki undir rekstrarkostnaði. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að forsendur fyrir lestarsamgöngum milli Keflavíkur og Reykjavíkur hafi gjörbreyst undanfarin ár vegna fjölgunar farþega um Keflavíkurflugvöll, sem og tækniframfara sem hafa leitt til lækkunar á stofn- og rekstrarkostnaði og styttri ferðatíma. Gert er ráð fyrir að tekjur verði 10,5 ma. kr. á fyrsta rekstrarári og þar af verði tekjur af flugfarþegum um 87% heildartekna. Árlegur rekstrarkostnaður er talinn verða um 5,8 ma. kr.

Samkvæmt skýrslunni er verkefnið í dag arðbært sem einkaframkvæmd og þarf ekki á beinum framlögum ríkis eða sveitarfélaga að halda.