„Þetta er á undirbúningsstigi en margir eru áhugasamir um málið þar sem verður látið reyna á lögmæti þessarar skattheimtu,“ segir Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður sem vinnur að undirbúningi málssóknar á hendur ríkinu vegna auðlegðarskattsins. Hróbjartur telur skattheimtuna brjóta í bága við stjórnarskrá landsins.

Hróbjartur bendir á að í þeim örfáu löndum þar sem auðlegðarskatturinn sé við lýði þá takmarkist hann ætíð við heildartekjur og skattbyrði viðkomandi. Hér geri hann það hins vegar ekki.

„Í öðrum löndum er þetta í rauninni eins og launaskattur. Hér er hins vegar ekkert samhengi á milli tekna viðkomandi, skattbyrði hans og þessa skatts. Fólk getur því lent í því að vera með lágar tekjur en með fasteignir sem mynda auðlegðarskattstofn án þess að það gefi af sér tekjur,“ segir hann og bætir við að þegar svo beri undir verði viðkomandi að fjármagna skattgreiðsluna, svo sem með því að ganga á skattstofninn eða fjármagna hann með lántöku. Takist það ekki geti ríkið gengið að viðkomandi. „Við viljum láta reyna á það hvar mörkin eru á milli skattheimtu og því hvar friðhelgi eignaréttarins er rofin,“ segir Hróbjartur og vísar til þess að í 1. lið í 72. grein stjórnarskrárinnar sé fjallað um friðhelgi eignarétturinn.

Hróbjartur skrifaði grein um auðlegðarskattinn í Viðskiptablaðinu í fyrrahaust þar sem málið er reifað. Greinina má nálgast hér :