*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 3. mars 2015 16:37

Undirliggjandi hrein staða neikvæð um 880 milljarða

Miðað við reiknað uppgjör innlánsstofnana og annarra fyrirtækja í slitameðferð er hrein staða þjóðarbúsins metin neikvæð um 880 milljarða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í árslok 2014 er metin neikvæð um 880 milljarða króna eða 45% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2014. Til samanburðar var undirliggjandi staða í lok þriðja ársfjórðungs metin neikvæð um 929 milljarða króna. Undirliggjandi staða hefur því batnað á fjórða ársfjórðungi um 49 milljarða króna eða um 2,5% af vergri landsframleiðslu. Kemur þetta fram í frétt á vefsíðu Seðlabanka Íslands.

Stærsta hreyfingin í ársfjórðungnum var rúmlega 400 milljarða króna útgreiðsla LBI til kröfuhafa en félagið notaði að hluta til innlán í erlendum gjaldmiðlum sem geymd voru í innlendu viðskiptabönkunum. Viðskiptabankarnir seldu erlendar skammtímaeignir á móti úttekt innlánanna sem veldur lækkun á erlendri eignahlið þjóðarbúsins án innlánsstofnana í slitameðferð en á móti dregur úr neikvæðum reiknuðum áhrifum af slitum búanna.

Aðrar helstu breytingar eru aukinn nettó gjaldeyrisforði um 36 milljarða króna og gengis- og virðisbreytingar á erlendum hlutabréfum innlendra aðila sem valda hækkun eignamegin um 35 milljarða. Skuldamegin vegur þyngst hækkun á skuldaskjölum um 28 milljarða króna. Um einn þriðji er tilfærsla úr innlánum í skuldabréf en um 2/3 hlutar skýrast af skuldabréfaútgáfum innlendra aðila erlendis og óhagstæðri gengisþróun á útistandandi skuldabréfum.

Slit föllnu bankana hafi neikvæð áhrif

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 7.835 milljarða króna eða 398% af vergri landsframleiðslu við lok árs 2014. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð var staðan neikvæð um 121 milljarða króna eða 6% af vergri landsframleiðslu. Í frétt Seðlabankans segir að talið sé að slit innlánsstofnana í slitameðferð hafi neikvæð áhrif á hreinu stöðuna sem nemur 759 milljörðum króna eða 39% af vergri landsframleiðslu.

Undirliggjandi hrein erlend staða miðað við reiknað uppgjör innlánsstofnana í slitameðferð og fyrirtækja sem unnið er að slitum á er því metin neikvæð um 880 milljarða eða 45% af vergri landsframleiðslu, eins og áður segir.