Uppgjör breskra smásölufyrirtækja í vikunni hafa dregið úr áhyggjum smásölugeirans um hugsanlegan samdrátt í einkaneyslu almennings þar í landi. Í gær greindi verslanakeðjan BHS frá því að undirliggjandi sala (e. like-to-like sale) hefði náð sér aftur á strik á undanförnum sex vikum og nam söluaukningin þremur prósentum, að sögn Philip Green, eiganda félagsins. Í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph kemur fram að hagnaður af rekstri BHS á síðasta fjárhagsári - en því lauk 31. mars síðastliðinn - hafi verið 50 milljónir punda, auk þess sem sölutekjur jukust um 1,4% á milli ára og námu samtals 872 milljónum punda.

Green tilkynnti jafnframt að hann hygðist ekki greiða sér arðgreiðslu fyrir síðasta fjárhagsár heldur vildi hann fremur nota þá upphæð til endurfjárfestingar í BHS. "Ég þarf enga peninga. Mér hefur ekki enn tekist að eyða því sem ég tók út síðast", er haft eftir honum í Financial Times. Hann greiddi fjölskyldu sinni 1,2 milljarða punda arðgreiðslu í október árið 2005. Green segist auk þess eiga í viðræðum við "fáeina einstaklinga" um að taka við starfi forstjóra BHS.

Skuldir BHS á síðasta fjárhagsári minnkuðu úr 115 milljónum punda í 61,8 milljónir punda. Green sagði að við núverandi aðstæður á fjármálamarkaði væri mikill kostur að búa við sterkan efnahagsreikning. "Við eigum fasteignir að andvirði 250 milljónum punda og yfirdráttur félagsins er um 60 milljón pund", að því er fram kemur í Financial Times. "Önnur smásölufyrirtæki í Bretlandi skulda mun meira," bendir hann á.

Á þriðjudaginn jókst bjartsýni smásölugeirans eftir að Tesco, stærsta smásölufyrirtæki Bretlands, greindi frá því að undirliggjandi sala hefði aukist um 5% á síðustu vikum, eftir að hafa dregist saman um 3,5% á sex mánaða tímabili fram til 25. ágúst. Einnig jókst undirliggjandi hagnaður Tesco um 14% frá því á sama tíma í fyrra og samtals nam hagnaðurinn 1,32 milljörðum punda, samanborið við 1,15 milljarða punda hagnað árið á undan. Gengi hlutabréfa félagsins - sem hafa lækkað að undanförnu, ásamt bréfim annarra samkeppnisaðila - hækkuðu um allt að 7% í kjölfarið. Afkoma Tesco, sem var umfram væntingar greiningaraðila, smitaði út frá sér og gengi hlutabréfa í öðrum smásölufyrirtækjum - meðal annars Kingfisher, Next og Home Retail Group - hækkaði einnig skarpt.