Nú hefur kaupsamningur verið undirritaður um sölu eignarhluts Íslandsbanka í fyrirtækinu Frumherja hf. Það er félagið Fergin ehf., sem er dótturfyrirtæki Íslandsbanka, sem annaðist söluna, en kaupandi samkvæmt kaupsamningi er fyrirtækið SKR1 hf.

SKR1 hf. er í eigu fyrirtækjanna Tiberius ehf. og Skriður slhf. Tiberius er í eigu Andra Gunnarssonar, Fannars Ólafssonar, Kristjáns Grétarssonar og Þórðar Kolbeinssonar. Skriður slhf. er í eigu Íslenskra verðbréfa hf.

Kaupverðið sem samið var um er trúnaðarmál, en kaupin eru þó gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem mun gera mat á kaupsamningnum á næstunni.

Frumherji rekur ýmis konar skoðanastarfsemi, þar sem ökutæki, fasteignir, skip og rafmagnskerfi eru skoðuð - auk þess sem ökuprófanir eru framkvæmdar og mælitæki löggilt.