*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 27. september 2016 17:20

Undirrita samning við Sinopec

Orkustofnun, Artic Green Energy og kínverska fyrirtækið Sinopec hafa undirritað samstarfssamning um savinnu á sviði jarðvarmarannsókna.

Ritstjórn
Haukur Harðarson, stjórnarformaður Arctic Green Energy, Zhang Shaoping, forstjóri Sinopec Star Petroleum Co., Ltd. og Jónas Ketilsson, staðgengill orkumálastjóra

Orkustofnun, íslenska fyrirtækið Arctic Green Energy og kínverska fyrirtækið Sinopec, undirrituðu nýlega samstarfssamning um samvinnu og samráð á sviði jarðvarmarannsókna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á heimasíðu orkustofnunar.

Samkvæmt samkomulagi munu samningsaðilar vinna saman á sviði rannsókna og þróunar, þjálfunar jarðhitasérfræðinga og að auknum samskiptum og samvinnu á milli íslenskra og kínverskra aðila á sviði jarðvarma.

Aðkoma Orkustofnunar að samkomulaginu mun fela í sér tækifæri fyrir íslenska fagþekkingu í Kína enda mikill uppgangur þar í landi. Stofnunin hefur sérstakleg unnið að uppbyggingu jarðhitaþekkingar í fjölmörgum löndum, sérstaklega þó með starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna til fjöld ára, sem staðsett er hjá Orkustofnun. Alls hafa 84 sérfræðingar frá Kína farið í gegnum sex mánaða nám skólans á síðastliðnu ári.

Arctic Green Energy og Sinopec hafa undanfarin 10 ár rekið sameiginlega hitaveitu í Kína undir nafninu Sinopec Green Energy Geothermal. Félagið hefur á þessum tíma vaxið í að verða eitt stærsta jarðvarmahitaveita heims með 163 varmaskiptastöðvar og 247 borholur í rekstri. 

Umsvif fyrirtækisins hafa yfir sama tímabil komið í veg fyrir útblástur á þriðju milljón tonna koltvísýrings, samkvæmt tilkynningunni. Arctic Green Energy er íslenskt jarðvarmafyrirtæki sem hefur lagt megináherslu á Asíumarkað. Fyrirtækið hefur auk Kína, komið að verkefnum á Filippseyjum og Víetnam. 

Sinopec er þriðja stærsta fyrirtæki heims skv. lista fjármálatímaritsins Forbes. Fyrirtækið telur yfir 800 þúsund starfsmenn og starfar á sviði olíu- og gas á landi, en hefur í auknum mæli verið að færa sig inn á svið endurnýjanlegrar orkuvinnslu undanfarin ár.