Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og Alþjóðabankans var haldinn um síðustu helgi. Sótti Már Guðmundsson seðlabankastjóri fundinn fyrir Íslands hönd. Í byrjun síðustu viku birti AGS uppfærða hagspá og var umræðan í upphafi vorfundar því á jákvæðu nótunum, en stofnunin hefur ekki verið jafn bjartsýn á hagvöxt á heimsvísu frá því að fjármálakreppan skall á haustið 2008. Er leið á vorfundinn snerist umræðan þó í aðra átt, þar sem áhyggjur AGS af lágri verðbólgu í Evrópu fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum vestanhafs. Þá lýstu G20 löndin yfir vonbrigðum sínum með hve hægt hefði gengið að samþykkja tillögur um breytingu á regluverki AGS.

Ójöfnuður og loftslagsbreytingar

Fundur fjárhagsnefndar AGS (IMFC) var einn af aðalfundum helgarinnar en fundinn sitja fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar aðildarríkja AGS. Á fundinum voru lagðar fram efnahagsgreiningar á heimsbúskapnum og alþjóðlega fjármálakerfinu. Lagði nefndin áherslu á að stjórnvöld víðsvegar um heim einbeittu sér nú að umbótum til millilangstíma fermur en til skamms tíma, en aðgerðir síðastliðinna ára hafa haft það að sjónarmiði að styðja við efnahagsbatann í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Nú sé hins vegar mikilvægt að horfa lengra fram í tímann og leggja áherslu á kerfislægar umbætur sem styðja við sjálfbæran og stöðugan vöxt og aukið atvinnustig.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .