EFTA-ríkin þrjú, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og Bretland tilkynntu í hádeginu nýjan fríverslunarsamning. Í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, ráðherra málaflokksins, að um tímamótasamning sé að ræða.

Samningurinn veitir gagnkvæman aðgang að mörkuðum samkvæmt nánari skilyrðum þegar kemur að vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum. Hagsmunir Íslands vegna útflutnings, til að mynda á landbúnaðar- og sjávarafurðum eru sagðir tryggðir og þá auðveldi hann þjónustuviðskipti milli ríkjanna.

Leiðrétting Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að samningurinn hefði verið undirritaður en það er ekki rétt. Hið rétta er að viðræðum er lokið og tilkynnt hefur verið um samkomulagið. Stefnt er að því að undirrita samninginn á næstunni. Fyrirsögn og texta fréttar hefur verið breytt í samræmi við þetta.

„Nýr fríverslunarsamningur við Bretland hefur verið forgangsmál í ráðherratíð minni og mun skipta sköpum fyrir bæði íslensk fyrirtæki og neytendur. Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu og ég er sannfærður um að þessi samningur muni styrkja efnahags- og vinatengsl Íslands og Bretland um ókomna tíð,“ er haft eftir Guðlaugi í tilkynningunni .

Til viðbótar hefur samningurinn að geyma ákvæði um skuldbindingar á sviði umhverfisverndar en það er í fyrsta sinn sem Ísland gerir fríverslunarsamning sem inniheldur slíkt.

Á vef breskra stjórnvalda kemur fram að samningurinn veiti breskum fyrirtækjum möguleika á að taka þátt í útboðum í ríkjunum þremur og að virði þess kunni að hlaupa á allt að 200 milljónum punda á ári hverju. Þá feli samningurinn í sér lægri tolla á rækju og ýsu auk þess að geyma ákvæði um breskt áfengi sem flutt verður til Íslands og Noregs.

Þá er þess getið að samningurinn feli í sér að þegar bresk félög flytja inn vörur til Íslands og Noregs muni þau geta gert það án þess að fylla út eitt einasta eyðublað þar sem öll samskipti verði rafræn. Að endingu lækka tollar sem Noregur leggur á breska osta stórkostlega sem og svína- og fuglakjöt.