Í gærkvöldi var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, viðstaddur undirritun samnings um nýtingu jarðhita í Innri-Mongólíu samkvæmt tilkynningu frá embættinu. Þar segir að fylkisstjóri Innri-Mongólíu, framkvæmdastjóri Sinopec, eins stærsta orkufyrirtækis Kína, og Alexander K.Guðmundsson frá Enex China, hafi undirritað samninginn við sérstaka athöfn í sendiráði Íslands í Beijing.

Samningurinn var gerður í beinu framhaldi af þeim viðræðum sem forseti átti nokkrum dögum áður við fulltrúa frá Innri-Mongólíu en í honum er kveðið á um margháttað samstarf við nýtingu jarðhita, bæði til húshitunar, orkuframleiðslu og gróðurhúsaræktunar.

Heimsókninni til Kína lýkur á morgun

Heimsókn forseta Íslands til Kína lýkur með því að hann tekur í dag og á morgun þátt í umræðum og málstofum á alþjóðaþinginu sem World Economic Forum heldur í Tianjin. Það sækir fjöldi áhrifamanna og sérfræðinga, einkum frá löndum í Asíu og miðast umræður aðallega við þætti sem helst munu einkenna þróun efnahags- og atvinnulífs á komandi árum, einkum með tilliti til sjálfbærni og tækninýjunga.

Ólafur Ragnar átti í morgun  „efnisríkan og jákvæðan“ fund með forsætisráðherra Kína Wen Jiabao. Fundurinn fór fram í Tianjin þar sem forseti og forsætisráðherrann sækja þing World Economic Forum en það er auk þingsins í Davos sagður veigamesti atburðurinn í starfsemi þess.

„Á fundinum með forseta Íslands ítrekaði kínverski forsætisráðherrann Wen Jiabao að kínversk stjórnvöld hefðu ákveðið að styðja Ísland sérstaklega á tímum efnahagslegra erfiðleika og væri gjaldeyrisskiptasamningurinn milli Seðlabanka Kína og Seðlabanka Íslands sem undirritaður var í sumar mikilvægur hornsteinn slíks samstarfs. Kínverjar myndu innan þess ramma leggja kapp á aukinn innflutning á íslenskum vörum og víðtækt samstarf við íslensk verkfræðifyrirtæki og orkufyrirtæki sem stuðla myndi að aukinni þátttöku þeirra í jarðhitavæðingu Kína. Það væri einlæg von kínverskra stjórnvalda að slíkt fjölþætt samstarf, bæði á sviði peningamála, viðskipta og framkvæmda, myndi auðvelda endurreisn íslensks efnahagslífs," segir í fréttatilkynningu frá embættinu.

Ræddi um jarðhitaverkefni

„Forsætisráðherrann ræddi auk þess ítarlega um jarðhitaverkefni í Kína, fagnaði þeim árangri sem náðst hefði með íslenska verkefninu í Shaanxi, samningnum sem gerður var í gær við Innri-Mongólíu og þeim áformum sem fram hefðu komið í viðræðum forseta í síðustu viku við stjórnvöld í Yunnan. Þá bauð forsætisráðherrann Íslendingum að taka þátt í stórri sýningu sem helguð verður hreinni orku, en hún verður haldin í Beijing í nóvember á þessu ári. Viðskiptaráðherra Kína sagði í viðræðum við forseta fyrir nokkrum dögum að Kínverjar vildu sérstaklega styðja þátttöku Íslands í sýningunni.

Forsætisráðherra Kína Wen Jiabao sagði að eldgosið í Eyjafjallajökli hefði vakið gríðarlegan áhuga á Íslandi í Kína og á næstunni myndi fjölga mjög kínverskum ferðamönnum á Íslandi. Forsætisráðherrann sagðist sjálfur hafa mikinn áhuga á að koma til Íslands við fyrsta tækifæri, ekki bara í krafti embættis síns heldur einnig sem jarðfræðingur því hann hefði á námsárum sínum kynnt sér eldfjöll og náttúru Íslands.," segir í tilkynningu.