Rúmlega 30.000 manns hafa nú undirritað áskorun til fiskveiðistjóra Evrópusambandsins, Maria Damanaki, um að brottkast á fiski verði þegar í stað bannað innan Evrópusambandsins.

Undirskriftasöfnunin er að frumkvæði þekkts bresks matreiðslumanns, Hugh Fearnley-Whittingstall, sem blöskrar hve miklu af fiski er árlega kastað fyrir borð af fiskiskipum að veiðum í Norðursjónum. Hann segir brottkastið alvarlegasta ágalla hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB, Common Fisheries Policy.

Fjallað er ítarlega um þessa herferð á vef breska blaðsins The Independent. Þar er m.a. komið inn á þær staðhæfingar að allt að helmingi aflans úr Norðursjó sé kastað aftur fyrir borð, ýmist vegna þess að fiskurinn sé of smár eða að kvóti skips í viðkomandi tegund er búinn.

Blaðið leitar m.a. til Callum Roberts, prófessors í sjávarlíffræði við Jórvíkurháskóla, en hann hefur sérhæft sig í rannsóknum er lúta að verndun lífríkis sjávar. Roberts telur staðhæfingarnar um brottkastið réttar og álítur að hlutfallið sé jafnvel enn hærra en fram hefur komið.

Greint er frá þessu á vef LÍÚ.