Undirstöður stöðugleika fjármálakerfisins hafa enn styrkst á síðustu tólf mánuðum að mati seðlabankans. Kemur þetta fram í formála seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar í ritinu Fjármálastöðugleika, sem kom út í dag.

Segir Már að þar vegi þyngst að niðurstaða hafi fengist í uppgjöri búa föllnu bankanna sem samrýmist efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika. Stærstu hindruninni fyrir almennri losun fjármagnshafta hafi því verið rutt úr vegi. Aðgerðin hafi haft það í för með sér að hreinar erlendar skuldir þjóðbúsins lækkuðu um sem nemur fimmtung af landsframleiðslu. Skuldir ríkissjóðs muni einnig lækka verulega í framhaldinu. Þessi niðurstaða hafi þegar skilað sér í auknu trausti á Íslandi og hækkun lánshæfismats ríkissjóðs.

„Fleira styður þá niðurstöðu að forsendur fjármálastöðugleika hafa batnað. Efnahagsbatinn hefur haldið áfram og fer enn sem komið er saman við nokkuð gott jafnvægi í þjóðarbúinu og aukinn viðnámsþrótt hjá heimilum og fyrirtækjum. Skuldir einkageirans í hlutfalli við landsframleiðslu hafa lækkað áfram og eru þær á þann mælikvarða komnar niður á svipað stig og um aldamótin. Eiginfjárstaða bankanna hefur styrkst enn frekar og fjölbreytni í fjármögnun þeirra hefur aukist,“ segir Már.

Hann segir áhættu í fjármálakerfinu um þessar mundir tengjast einkum næstu skrefum í losun fjármagnshafta, óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum og vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum.

„Útboði aflandskróna fylgir áhætta en hún er töluvert minni en áhætta sem tengdist uppgjöri búa föllnu bankanna. Um lægri fjárhæðir er að tefla auk þess sem góð niðurstaða við uppgjör slitabúanna og kaup Seðlabankans á gjaldeyri undanfarin misseri draga úr greiðslujafnaðarvanda sem fylgir losun fjármagnshafta, þ.m.t. á svokallaðar aflandskrónur. Eigi að síður er mikilvægt að næstu skref að losun fjármagnshafta takmarki greiðslujafnaðaráhættu og fjármálaóstöðugleika án þess að grafa undan orðspori og lánshæfismati. Áhætta tengd almennri losun hafta á innlenda aðila er hins vegar að sumu leyti ólík áhættu af slitum fallinna fjármálafyrirtækja og aflandskrónulausnum, því ekki er hægt að stýra niðurstöðunni með sömu nákvæmni. Á móti kemur að útstreymi gjaldeyris verður að erlendum fjáreignum Íslendinga sjálfra.“

Hann segir að undirbúningur fyrir almenna losun fjármagnshafta á innlenda aðila hafi miðað að því að draga úr líkum á óskipulegum fjármagnsflótta. Eðlilegt útflæði sem miði að því að breyta eignasamsetningu heimila, fyrirtækja og lífeyrissjóða verði hins vegar ekki vandamál.  Hann segir orðið mjög brýnt að hefja losun gagnvart innlendum aðilum þar sem höftin valdi vaxandi bjögun í þjóðarbúskapnum eins og birtist m.a. í gengishækkunarþrýstingi og hækkun eignaverðs. Þá sé fjármagnsinnflæði hafið sem auki enn á bjögunina og geri losun fjármagnshafta brýnni en ella.

„Í þessu ljósi er mikilvægt að lokið verði við umbætur á regluverki sem ætlað er að draga úr áhættu í fjármálakerfinu við skilyrði óheftra fjármagnshreyfinga. Þar má sérstaklega nefna möguleika á að hamla á móti erlendum lántökum innlendra aðila sem ekki hafa tekjur eða eignir í erlendum gjaldmiðlum. Lagafrumvarp sem heimilar Seðlabankanum að takmarka þess háttar lántökur í því skyni að varðveita fjármálastöðugleika liggur nú fyrir Alþingi. Mikilvægt er að heimildin verði lögfest áður en fjármagnshöft eru losuð á innlenda aðila. Þá eru til skoðunar tæki sem Seðlabankinn gæti notað til að hamla á móti óhóflegu fjármagnsinnstreymi vegna vaxtamunaviðskipta. Eins og reynslan sýnir getur slíkt fjármagnsinnstreymi bæði dregið úr virkni peningastefnunnar og grafið undan fjármálastöðugleika.“