Tæknirisinn Apple skoðar nú ásakanir þess efnis að einn af undirverktökum fyrirtækisins í Kína brjóti á starfsmönnum sínum.

Verkalýðsvakt Kína, sem raunar hefur aðsetur í New York, sakar fyrirtækið um að neyða starfsmenn sína til þess að vinna allt of langa vinnuviku. Hjá Apple er reglan sú að þeir sem vinni að framleiðslu á þeim vörum undir merkjum Apple vinni ekki meira en 60 tíma vinnuviku.

Umrædd verksmiðja framleiðir bakhlið iPhone símanna á ódýrari gerð iPhone síma sem búist er við að komi út á næstu vikum.

Verkalýðsvakt Kína segir að starfsmennirnir vinni meira en ellefu tíma á sólarhring og fullyrt er að starfsmennirnir séu neyddir til að undirrita samning um að þeir þiggi ekki laun fyrir yfirvinnuna.

Það var CNN sem greindi frá.