Lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar, í endurupptökumáli þeirra, er undrandi á niðurstöðu Hæstaréttar um að vísa málinu frá Hæstarétti.

Með dómi árið 2013 voru Jón Ásgeir og Tryggvi dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar og greiðslu sekta vegna skattalagabrota. Í maí 2017 komst Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) að þeirri niðurstöðu að málið hefði brotið gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) um bann við tvöfaldri refsingu.

Endurupptökunefnd féllst í fyrra á beiðni þeirra um endurupptöku þar sem verulegir gallar hefðu verið á málsmeðferð þeirra. Hæstiréttur vísaði málinu hins vegar frá á þeim grundvelli að ekki væri að finna heimild í íslenskum lögum til að endurupptaka mál á þeim grundvelli að MDE hefði dæmt ríkið brotlegt við MSE. Rýmkandi lögskýring eða lögjöfnun fæli í sér að Hæstiréttur væri að taka sér lagasetningarvald í hönd og var því hafnað af réttinum.

„MSE er ekki einhver sáttmáli úti í heimi, hann var lögfestur hér á landi árið 1994. Hann hefur því lagagildi líkt og réttarfarslög og hegningarlög. Í 13. gr. sáttmálans er lögð sú skuldbinding á aðila að veita þegnum sínum raunhæf úrræði til að tryggja þau réttindi sem í sáttmálanum felast,“ segir Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeir og Tryggva.

Að fenginni þessari niðurstöðu liggur fyrir, að mati lögmannsins, að ríkið hafi vanrækt að tryggja þessi réttindi í íslenskri löggjöf og að brýnt sé að bregðast við því.

„Það liggur fyrir þingi frumvarp um endurupptökudómstól en í því frumvarpi felst að endurupptaka verður heimilt ef MDE hefur dæmt ríkið brotlegt. Ég get hins vegar ekki neitað því að mér finnst alveg furðuleg sú niðurstaða að þá sé ekki heimilt miðað við núverandi aðstæður,“ segir Gestur.

Ekki í samræmi við Vegas-málið

Máli sínu til stuðnings vísar hann til hins svokallaða Vegas-máls. Þar var einstaklingur dæmdur í Hæstarétti en rétturinn mat sannleiksgildi framburðar vitna með öðrum hætti en héraðsdómur. MDE komst að þeirri niðurstöðu að sú framkvæmd fæli í sér brot gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu og féllst Hæstiréttur síðan á endurupptöku á grundvelli d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Á honum var byggt í máli Jóns og Tryggva.

„Reglan felur í sér að endurupptaka er heimil ef það var galli á málsmeðferð sem hafði áhrif á niðurstöðuna. Það liggur fyrir að það var galli á málsmeðferðinni hér heima og að brotinn hafi verið réttur á umbjóðendum mínum og fjölda annarra,“ segir Gestur.

Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að niðurstaða dómsins nú skjóti ekki loku fyrir það að Jón Ásgeir og Tryggvi geti neytt réttar síns samkvæmt 13. gr. MSE. „Þetta eru orð sem ég skil ekki. Það er engin önnur raunhæf leið til að ná fram rétti sínum önnur en sú að dómstóllinn taki málið fyrir og endurupptaki það,“ segir Gestur.

Gestur segir að refsing Jóns Ásgeirs og Tryggva hafi verið umtalsverð. Báðir voru þeir dæmdir í skilorðsbundið fangelsi og til tugmilljóna sektargreiðslu. Dómnum fylgdi einnig missir réttinda, til að mynda heimild til að sitja í stjórnum félaga.

„Það verður ekki fært þeim til baka,“ segir Gestur. Ekki liggja fyrir viðbrögð af hálfu umbjóðenda hans um hvernig skuli bregðast við dómi Hæstaréttar í dag.